Umdeildur miðbær í Hamraborg – deilur

Á síðasta fundi bæjarstjórnar á síðasta kjörtímabili var sala á húseignum Kópavogsbæjar að Fannborg 2, 4 og 6 þrýst í gegnum kerfið þrátt fyrir mótatkvæði minnihlutans, þar á meðal bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar.  Salan var með því fororði að það ríkti skilningur hjá bæjaryfirvöldum varðandi uppbyggingu kaupenda á svæðinu. Það var sem sagt gefið vilyrði fyrir því að kaupendur gætu byggt á svæðinu og þannig hagnast á viðskiptunum. 

 

Af hverju átti Kópavogur ekki að selja?

Hagsmunir kaupenda og hagsmunir íbúa Kópavogs fara ekki endilega saman. Kaupendur vilja sem mest byggingamagn fyrir sem flestar íbúðir til að hagnast sem mest af fjárfestingu sinni.  Hagsmunir Kópavogsbúa eru hins vegar ekki gróðavonin. Hagsmunirnir eru að svæðið verði skipulagt í samvinnu við íbúa svæðisins, að svæðið verði sjálfbært, manneskjulegt og í anda heimsmarkmiða SÞ. Svæði sem Kópavogsbúar og nærsveitungar vilja heimsækja, sækja þjónustu til og njóta. Það er því ljóst í mínum huga, nú sem aldrei fyrr, að Kópavogur átti aldrei að selja húsin heldur vinna sjálfur skipulagið í samstarfi við íbúa og með hag þeirra í huga.

 

Aðkoma íbúa

Kaupendur húsanna leggja fram tillögu að uppbyggingu að nýjum miðbæ. Fyrst vinnslutillögu 1 sem var svo hroðaleg að jafnvel helstu turnamenn fengu áfall. Þá vinnslutillögu 2 sem var litlu skárri. Að fengnum athugasemdum leggja þeir svo fram núverandi tillögu sem er til kynningar fyrir bæjarbúum. Íbúar og aðrir hafa aldrei haft möguleika á að koma að sínum sjónarmiðum, hafa ekki haft annan valkost, aðeins bregðast við fyrirliggjandi tillögum húskaupenda.

 

Af hverju deilur? 

Deilurnar koma til vegna þess að ferill málsins er allur rangur. Byrjað er á röngum enda með því að teikna skipulagið eftir þörfum og hugmyndum þeirra sem keyptu þrjú hús í Fannborg af bænum, en ekkert leitað til þeirra hundraða sem eiga líka húseignir í Fannborg og nágrenni. Hvar er sanngirnin í því. Af hverju eru þeir sem nýlega keyptu Fannborg 2, 4 og 6  eitthvað rétthærri en eigendur yfir hundrað íbúða  í Fannborg 1 - 9 og nágrenni. Er það vegna þess að þeir hafa fjármagn til að láta búa til skipulag fyrir Kópavogsbæ? 

 

Hafa þeir þekkingu á uppbyggingu miðbæjar? 

Kaupendur eru Árkór sem er tiltölulega nýstofnað fyrirtæki og hafa ekki sýnt framá að þeir hafi einhverja þekkingu á uppbyggingu miðbæjar. Margvíslegum spurningum er ósvarað. Hér er verið að troða eins mörgum íbúðum á svæðið og mögulegt er, engin greining hefur farið fram á svæðinu, hvaða þjónusta á að vera þar í boði o.s.frv. 

 

Bútasaumur

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa einnig vakið athygli á að hér er verið að kynna skipulag fyrir lítinn hluta svæðisins. Sá hluti er ranglega kallaður Hamraborg en stendur ekki við Hamraborg heldur Fannborg. Það er eðlilegra að skipuleggja allt svæðið í einu, heildstætt en ekki fara í bútasaum. Það er nefnilega ekki víst að bútarnir passi saman í lokin og þá erum við illa stödd. 

 

Bara eitt tækifæri

Mikilvægt er að hafa í huga að Kópavogur fær bara eitt tækifæri til að skipuleggja þetta svæði. Mistök verða ekki leiðrétt eftir að byggingar hafa risið. Það er því mikilvægt að vanda sig. 

 

Pétur Hrafn Sigurðsson

Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Bergljót Kristinsdóttir