Berjumst gegn fátækt og jaðarsetningu

Of margir íbúar Kópavogs búa við skort á efnislegum gæðum. Margir þeirra eru öryrkjar, aldraðir eða fólk sem lifir á fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ.

Til skamms tíma litið þarf að fjölga félagslegum íbúðum en húsnæðismálin eru einn stærsti orsakavaldur fátæktar.

*Rannsóknir benda eindregið til þess að fólk sem hvorki er í vinnu né námi eigi langtímafátækt og jaðarsetningu til framtíðar verulega á hættu. Það eru lítil lífsgæði fyrir einstaklinga, auk þess sem það er dýrt fyrir samfélagið.* Um 25% þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð af bænum teljast vinnufær. Öll höfum við eitthvað fram að færa en þurfum stundum stuðning til að virkja og nýta styrkleika okkar. Það þarf að hugsa út fyrir kassann og leita sértækra leiða til að aðstoða fólk sem býr við langtímafjárhagsaðstoð og atvinnuleysi. Þar þarf virðing fyrir fólki að vera í fyrirrúmi og sú grundvallarhugsun að ekki virka sömu lausnir fyrir alla. Leggja skal mikla áherslu á starfsþjálfun fyrir fólk á fjárhagsaðstoð í samstarfi við fyrirtæki. Þar þarf Kópavogur, sem stærsti vinnustaður bæjarins, að ganga á undan með góðu fordæmi og skapa slíka starfsþjálfun, sem getur leitt til langtímastarfa og aukinnar velgengni jaðarhópa.

Einnig þarf aukið samráð og samtal við notendur félagsþjónustunnar. Nú þegar er til staðar öldungaráð, ungmennaráð og ráð um málefni fatlaðra. Næsta rökrétta skref, sem jafnframt er lögbundið, er notendaráð fólks á fjárhagsaðstoð. Fátækt er oftar en ekki tilkomin vegna áfalla sem fólk verður fyrir á lífsleiðinni, áfalla sem hugsanlega hefði verið hægt að vinna með snemma á lífsleiðinni og auka þannig lífsgæði viðkomandi einstaklinga. Það þarf að vinna með og fyrir þennan hóp til aðstoðar þeim sem standa höllum fæti í dag og til að mæta þeim sem gætu lent i hindrunum í framtíðinni. Þau sem þiggja fjárhagsaðstoð, af ýmsum ástæðum, eru best til þess fallin að móta stefnu og finna leiðir til valdeflingar og fjárhagslegs sjálfstæðis. Félagsleg liðveisla er tæki sem tilvalið er að nota til að halda vel utan um félagslega endurhæfingu fólks í fjárhagsörðugleikum.

Samfylkingin leggur áherslu á snemmtæka íhlutun í málefni barna og foreldra. Uppeldisráðgjöf, forvarnir og námskeið fyrir börn og foreldra barna sem eiga í félagslegum eða sálrænum vanda eru mikilvægur þáttur. Sérstaka áherslu þarf að leggja á fjölskyldur af erlendum uppruna.

Fjölga þarf úrræðum fyrir börn og unglinga með sértækan og alvarlegan vanda. Það er brýn þörf á skammtímavistun fyrir fötluð börn. Auk þess er vistheimili fyrir börn löngu tímabært en ekki hefur verið hafinn undirbúningur að því.

Jafna þarf aðstöðumun búsetuforeldra og lögheimilisforeldra í að veita og þiggja upplýsingar um börn. Þetta er tæknilegt úrlausnaratriði sem þarf að klára.

 

Til þess að útrýma fátækt í Kópavogi þurfum við að: 

  • Leggja áherslu á starfsþjálfun fólks sem nýtur fjárhagsaðstoðar.

  • Fjölga félagslegum búsetuúrræðum í Kópavogi og draga þannig úr biðlistum eftir félagslegu húsnæði.

  • Setja á laggirnar notendaráð fólks á fjárhagsaðstoð.

  • Auka félagslega liðveislu fyrir fólk sem lifir á fjárhagsaðstoð.

  • Bjóða verkalýðshreyfingunni upp á samstarf um uppbyggingu á húsnæðiskerfi fyrir einstaklinga sem ekki komast inn á húsnæðismarkaðinn og hafa ekki aðgang að félagslega kerfinu. Þannig gæti Kópavogur skapað úrræði fyrir ungt fólk, aldraða og tekjulága svo að þeir hópar geti leigt öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

michal-parzuchowski-224092-unsplash.jpg