Fjölmenning í fyrirrúmi

Kópavogsbúar af erlendum uppruna auðga samfélag okkar og eru velkomnir í bæinn. Nú eru um 10% bæjarbúa af erlendum uppruna og nauðsynlegt er að bærinn taki tillit til þess í stefnumótun og störfum sínum. Fólk með annað móðurmál en íslensku á að hafa sömu tækifæri og aðrir bæjarbúar til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, án allra hindrana. Lykilatriði er að á heimasíðu bæjarins sé auðlesinn texti fyrir fólk af erlendum uppruna og/eða með lélegt stofnanalæsi. Samfylkingin vill auka upplýsingagjöf til fólks af erlendum uppruna og styðja sérstaklega við nýja íbúa sem hafa lítið eða ekkert félagslegt bakland. Það viljum við gera með því að komið verði á kerfi af stuðningsfjölskyldum fólks af sama þjóðerni til stuðnings fólki sem nýflutt er til landsins.

Margir erlendir borgarar í Kópavogi eiga í félagslegum erfiðleikum. Um 30% þiggjenda fjárhagsaðstoðar eru af erlendum uppruna. Það er grundvallaratriði til að nýbúar aðlagist og nái fótfestu í samfélaginu að þeir fái atvinnu sem fyrst. Rannsóknir benda eindregið til þess að fólk sem hvorki er í vinnu né námi eigi langtímafátækt og jaðarsetningu til framtíðar verulega mikið á hættu. Það eru lítil lífsgæði fyrir einstaklinga, auk þess sem það er dýrt fyrir samfélagið. Það er mjög mikilvægt að Kópavogsbær setji í gang áætlun um starfsþjálfun fyrir notendur fjárhagsaðstoðar á vinnustöðum bæjarins til að auðvelda fólki að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Þetta á enn fremur við um fólk sem nýflutt er til landsins.

Nauðsynlegt er að fjallað sé um málefni erlendra ríkisborgara í bænum af fagmennsku og að sjónarmið þeirra hafi greiðan aðgang að stefnumótun í bænum. Því viljum við koma á fót fjölmenningarráði sem fjalli um þessi málefni; móttöku, aðlögun og aðstæður þessa hóps hér í bæ. Gæta þarf sérstaklega að því að upplýsingar frá bænum séu þýddar á erlend tungumál með tilliti til þess hvert þjóðerni nýrra Kópavogsbúa er.

Með kynningarbæklingi má koma mikilvægum upplýsingum til skila sem auðveldar erlendum ríkisborgurum að átta sig á stjórnkerfi og þjónustu bæjarins. Kynna þarf nýjum borgurum réttindi sín og skyldur í íslensku samfélagi þannig að þau þekki stöðu sína og geti jafnframt lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Styðjum bæjarbúa af erlendum uppruna og stuðlum að blómlegri fjölmenningu:

  • Með auðlesnum texta á heimasíðu bæjarins.

  • Stuðningsfjölskyldur fyrir fólk með ótryggt félagslegt bakland.

  • Með aukinni fræðslu og upplýsingagjöf til foreldra af erlendum uppruna.

  • Vefsíða og íbúagátt Kópavogs verði aðgengileg á nokkrum tungumálum.

  • Starfsþjálfun fyrir fólk af erlendum uppruna sem þiggur fjárhagsaðstoð.