Við viljum virkt, beint lýðræði.

Lýðræði og virkt samráð á að vera einn af hornsteinunum í stjórnsýslu Kópavogsbæjar. Hafa skal samráð við íbúa og félagasamtök í ákvarðanatöku þannig að sjónarmið íbúa og hagsmunaaðila komi til álita við afgreiðslu mála. Kópavogur á að vera leiðandi sveitarfélag þegar kemur að beinu lýðræði íbúanna. Mannréttindi, jöfnuður og jafnrétti á að vera leiðarljósið í stjórnsýslu Kópavogsbæjar.

Skref okkar í átt að gegnsærra og réttlátara samfélagi:

  • Auka gegnsæi í stjórnsýslu Kópavogsbæjar sem og íbúalýðræði.

  • Heimila að 2% af kosningabærum íbúum geti krafist borgarafundar um tiltekin málefni.

  • Kynna fyrir öllum nýjum íbúum Kópavogs þær stofnanir og þá þjónustu sem stendur til boða.

  • Upplýsingar í íbúagátt verði á nokkrum tungumálum.

  • Setja á laggirnar fjölmenningarráð sem verði til samráðs um málefni borgara af erlendu bergi.

  • Halda íbúafundi á vegum bæjarins á hverju ári í öllum hverfum.

  • Fylgja jafnréttisstefnu Kópavogsbæjar og efla starf jafnréttisfulltrúa bæjarins.

  • Nota kynjaða fjárhags- og starfsáætlun til að stuðla að auknu jafnrétti og betri nýtingu fjármuna.

Íbúalýðræði

Völd og áhrif bæjarbúa

Samfylkingin vill efla íbúasamráð í Kópavogi og auka völd og bein áhrif bæjarbúa þegar kemur að skipulagsmálum og öðru sem betur má fara í bæjarfélaginu.  

Samfylkingin vill að íbúum gefist kostur á að taka þátt í stærri ákvarðanatökum í bæjarfélaginu með íbúakosningum og að íbúar geti tjáð hug sinn snemma í ákvörðunarferlinu, svo sem um skipulagslýsingar. Fyrir slíkar kosningar er brýnt að fyrir liggi óháðar upplýsingar og gögn til að byggja ákvörðunina á. 

Samfylkingin vill virkja hverfaráðin til ráðgjafar og ákvarðanatöku um nærumhverfi bæjarbúa.

Betri „Okkar Kópavogur“

Samfylkingin vill endurhugsa lýðræðisverkefnið „Okkar Kópavog“ með það að markmiði að fjármagn til framkvæmda nýtist betur þar sem þörfin er mest, verkefnavalið verði fjölbreyttara og leitað sé nýrra leiða til að virkja íbúa til þátttöku á öllum stigum. 

„Kópavogur krakkanna“

Samfylkingin vill gera tilraunir með íbúalýðræði meðal barna bæjarins. Verkefni á borð við „Okkar Kópavog“ snúa ekki minna að börnum en öðrum íbúum og því kjörið að þau komi að hugmyndavinnu og ákvarðanatöku með virkum hætti. 

Kópavogsbúar af erlendum uppruna

Samfylkingin vill að Kópavogsbúar af erlendum uppruna, þ.m.t. flóttafólk, geti tekið þátt í samfélaginu jafnt á við aðra og að bærinn komi til móts við þarfir þessa hóps. Í því skyni verði m.a. gerð sérstök stefna og aðgerðaáætlun fyrir þennan hóp og haft verði sérstakt samráð við hann um þau málefni er varða hann sérstaklega. Heimasíða bæjarins og aðrar upplýsingar verði gerðar honum aðgengilegar. 

Betri samskipti

Samfylkingin vill bæta samskipti bæjarbúa við bæjaryfirvöld. Erindum bæjarbúa skal skilyrðislaust svara.  

Samfylkingin vill að bærinn standi fyrir fleiri og dýpri þjónustukönnunum meðal íbúa svo hægt verði að bregðast við vanda og óánægju með fullnægjandi hætti. Sérstök rækt verði lögð við að ná til þeirra hópa sem erfitt hefur verið að ná til.

Vernd uppljóstrara

Samfylkingin vill setja verklagsreglur um uppljóstrun um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Kópavogsbæjar í samræmi við lagakyldu þess efnis skv. lögum um vernd uppljóstrara. Þannig megi stuðla að því að upplýst verði um slíka háttsemi og dregið úr henni.  

Umboðsmaður Kópavogsbúa

Samfylkingin vill stofna embætti umboðsmanns Kópavogsbúa að fordæmi Reykjavíkurborgar. Hlutverk umboðsmannsins verði að leiðbeina íbúum í samskiptum við bæjaryfirvöld, fræða starfsmenn og hafa eftirlit með stjórnsýslu bæjarins til að tryggja vandaða stjórnsýsluhætti. Embættið verði sjálfstætt og heyri beint undir bæjarstjórn sem skal kjósa sér umboðsmann til fimm ára með ⅔ hluta atkvæða. Hann á að veita viðtöku gögnum og upplýsingum um hugsanleg brot sem og vakta og fylgjast með eðli kvartana bæjarbúa til einstakra sviða. Hann á að birta álit sín opinberlega og kynna fyrir bæjarstjórn. 

Virkari rafræn samskipti

Samfylkingin vill nýta rafræna stjórnsýslu betur til samskipta við bæjarbúa, m.a. þannig að þeir geti óskað eftir tilkynningum og fréttum í tölvupósti um efni er varðar nærumhverfi þeirra.