Þátttaka í stjórnmálastarfi

Andúð á stjórnmálastarfi

Aðgangur fólks að stafrænni afþreyingu hefur aukist til muna á síðustu tveimur áratugum. Afleiðing þess er að fólk hefur ekki sömu þörf fyrir að fara af bæ og taka þátt í félagsstarfi. Ofan á það bætist að margir taka orðið vinnuna með sér heim og halda áfram að sinna henni eftir að heim kemur. Jafnframt hefur álag á yngra fólk aukist með meiri kröfum til vinnu og heilsueflingar. Stjórnmálastarf hefur sannarlega orðið að víkja fyrir þessum þáttum. Eflaust spilar fleira inn í, s.s. andúð á stjórnmálum sem hefur aukist eftir tilkomu samfélgsmiðla og þeirrar óheftu orðræðu sem á sér stað á þeim vettvangi. En ef enginn vill sinna þessum þarfa málaflokk erum við í verri málum en annars hefði verið. Hætta er á að þeir sem standa undir starfi stjórnmálaflokka gefist upp ef ekki er nægur stuðningur og lítið bakland. Færri verða um hituna þegar velja á framvarðarsveit hvers flokks og flokkar gætu hreinlega lagt upp laupana. Lítil endurnýjun yngra fólks er áhyggjuefni því þeirra raddir þurfa að heyrast og einhverjir þurfa að veita þeim brautargengi.

Hver tekur ákvarðanirnar?

Stjórnmálaflokkar eru þrátt fyrir allt umræðuvettvangur um málefni sem snerta alla þjóðina. Bæði unga sem aldna. Við þurfum að heyra raddir allra til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir. Til þess er baklandið. Ef það er ekki til staðar er framvarðasveitin mögulega að taka ákvarðanir byggðar á hugmyndum fárra aðila sem búa við svipuð skilyrði og deila sömu heimssýn. Sem þarf ekki endilega að endurspegla vilja meirihluta flokksmeðlima.

Af hverju að taka þátt?

Ég vil hvetja alla sem áhuga hafa á þjóðfélagsumræðu að mæta á fundi hjá þeim flokki sem hver og einn telur hæfa sínum skoðunum eða mæta hjá öllum flokkum til að finna sinn stað og taka þátt. Ég get lofað öllum að vel er tekið á móti nýliðum alls staðar. Þátttakan er mannbætandi og gefandi. Samtalið er jafn mikilvægt í dag og það var fyrir hundrað árum. Það hefur ekki breyst. Þó Facebook umræðuformið sé töluvert notað þá er þátttaka í umræðuhópum sem eru af  holdi og blóði bæði góð þjálfun í framsögn og fundarsköpum og mun meira þroskandi en Facebook umræða, sem er ágæt með. Taktu þátt, vertu með í að breyta þjóðfélaginu til hins betra.

Gleðileg jól kæru Kópavogsbúar og eigið gott ár framundan.

Bergljót Kristinsdóttir

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og bæjarfulltrúi

Bergljót Kristinsdóttir