Samfylkingin í Kópavogi boðar til fundar um Samgönguáætlun mánudaginn 20 mars kl. 20.00

Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar mun fara í gegn um Samgönguáætlunina og þær breytingar og þann niðurskurð sem áætlaður er.
Að framsögn lokinni verða umræður og spurningar

Fundurinn hefst klukkan 20:00 og er haldinn í félagsmiðstöð Samfylkingarinnar í Kópavogi, Hlíðasmára 9, 3. hæð.

Allir velkomnir!

 

 

 

 

 

Logi Már Einarsson,
formaður Samfylkingarinnar.

 

Tækifæri í grunnskólum Kópavogs

Niðurstöður PISA könnunar eru ekki góðar fyrir Ísland. Kópavogur kemur betur út en mörg önnur sveitarfélög á landinu þó svo að niðurstaðan sé lakari í Kópavogi nú en undanfarin ár. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru íslensku nemendurnir einu til tveimur árum á eftir jafnöldrum sínum á Norðurlöndum í lesskilningi, læsi á stærðfræði og á náttúruvísindi.

Hvað er PISA

Í PISA-könnuninni er lagt mat á hversu vel nemendur, við lok grunnskóla, hafa tileinkað sér þekkingu og hæfni sem þeir þurfa á að halda í nútíma samfélagi. Sviðin þrjú sem OECD leggur áherslu á í PISA eru lesskilningur, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi.

Leiðir til úrbóta

PISA könnunin og niðurstöður hennar er ekki óumdeild hér á landi. Þrátt fyrir það held ég að við í Kópavogi eigum að rýna vel í niðurstöðurnar og nýta þær til að efla og bæta skólastarfið í bænum.
Í framhaldi af niðurstöðum PISA könnunarinnar birti menntamálastofnun skýrslu með greinum eftir íslenska fræðimenn í menntamálum með tillögum um úrbætur sem sveitafélög geta farið í til að efla menntun grunnskólabarna.
Þar kemur m.a. fram að við Háskóla Íslands hefur verið í gangi stærðfræðiátak fyrir kennara frá árinu 2015 og hafa verið stofnaðar námsleiðir fyrir starfandi kennara í grunnskólum. Flestir kennarar sem sækja námskeiðin eru í fullu starfi og nota frítíma sinn í námið. Hér getur Kópavogur komið inní og hvatt stærðfræðikennara í grunnskólum Kópavogs að sækja námskeiðin sem HÍ býður uppá og minnkað kennsluskyldu þeirra á móti á meðan á náminu stendur. Þannig verði “stutt við starfsþróun þeirra kennara sem hafa áhuga og þörf fyrir meiri menntun í stærðfræði” eins og það er orðað í skýrslunni og er ég ekki í vafa um að slíkt muni skila okkur betri kennslu og betri árangri og ekki síst ánægðari nemendum í stærðfræði.
Fræðimennirnir benda á fleiri atriði þar sem sveitafélög geta gert umbætur í grunnskólunum og má þar nefna eflingu kennsluráðgjafar í skólum, að lögð verði meiri áhersla á kennslufræðilega forystu skólastjóra og styrkja þátt þeirra í umbótastarfi.

Tækifæri fyrir Kópavog til umbóta

Kópavogur á að nýta sér þær hugmyndir sem fræðimenn hafa sett fram og hafa verið kynntar í framhaldi af niðurstöðum PISA könnunarinnar. Kópavogur á að vinna að innleiðingu þeirra hugmynda og ábendinga sem fram hafa komið í samráði við kennara og skólastjórnendur hér í bæ með það að markmiði að efla og styrkja grunnskólamenntun í bænum, börnin okkar eiga það skilið.

Pétur Hrafn Sigurðsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Sorphirða – sorpflokkun

Eitt er það sem allflestir íbúar í Kópavogi og reyndar á landinu öllu geta verið sammála um, en það er mikilvægi þess að sorpið okkar sé hirt með reglubundnum hætti. Sveitafélögin sjá um að sorpið sé hirt og hafa um það ákveðnar reglur um tíðni, fjölda tunna osfrv.
Hverju sveitarfélagi er það í sjálfsvald sett hvernig sorp er flokkað og hafa þau ólíkar reglur þar um. Sum bjóða upp á fleiri tunnur, önnur tunnu í tunnu og svo er víða lögð áhersla á grenndargáma sem íbúar geta nýtt undir flokkað sorp.

Breyting í Kópavogi

Í Kópavogi var nýlega gerð breyting á sorpflokkun og geta íbúar nú sett pappír og plast saman í bláu tunnuna. Hér er um að ræða tilraun til eins árs og samið var við Gámafélagið um að hirða pappírinn og plastið. Mér finnst vel hafa tekist til með þessa breytingu. Hins vegar fannst mér slæmt að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sá ekki ástæðu til að láta samstarfsaðila okkar í byggðasamfélaginu Sorpu vita af breytingunni fyrr en hún hafði gengið í gegn. Hefur það skapað óróa hjá Sorpu enda einkennileg stjórnsýsla og hreinlega ókurteisi að keyra breytingar fram án þess svo mikið sem láta samstarfsaðila okkar í nágrannasveitarfélögunum vita.
Samhæfð flokkunaraðferð
Þessi breyting vakti mig til umhugsunar almennt um þær ákvarðanir sem sveitarfélög taka um flokkun á sorpi. Hvert og eitt sveitarfélag er að vinna eftir sínum hugmyndum um flokkun og efalítið er hvert og eitt að reyna að gera sitt besta. Hitt er annað mál að aðferðirnar eru ólíkar og ólíkar aðferðir eru til þess fallnar að rugla fólk í ríminu. Þegar sunnlendingar fara t.d. á skíði til Akureyrar eða norðanmenn koma suður þá gilda ekki sömu reglur um flokkun. Segja mér kunnugir að um páska þá snarversni flokkun til mikilla muna í sveitafélögunum, öllum til tjóns. Velti ég fyrir mér hvort ekki sé skynsamlegt að sveitarfélög um allt land komi sér saman um samhæfðar flokkunaraðferðir.

Pétur Hrafn Sigurðsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar