Við viljum gera Kópavog grænni

Hlutverk sveitarstjórna í dag er að gera grænan lífsstíl að raunhæfum valkosti fyrir íbúa og að auka umhverfisvitund þeirra. Grænar samgöngur eiga að vera raunhæfur kostur fyrir Kópavogsbúa.

Í landi Kópavogs eru mörg svæði þar sem hægt er að þróa byggð þannig að stutt sé fyrir íbúa í almenningssamgöngur, þjónustu, verslun, skóla, atvinnu og útivistarsvæði.

IMG_8726.jpg
 
IMG_8730-Edit.jpg

Snjallari Kópavogur

Við ættum að nota hagkvæmar og umhverfisvænar snjalllausnir við þróun á skipulagi og umhverfi. Augljóslega er hægt að nýta snjalllausnir við deilihagkerfi bíla, sorplosun og öryggismál. Við viljum stíga þau skref.

Bættar almenningssamgöngur í þéttbýli spara fé og bæta loftgæði. Lýðheilsa batnar og lífsgæði aukast. Nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er eina raunhæfa leiðin til að mæta fólksfjölgun komandi ára og áratuga, þróun byggðar og ferðaþörfum íbúa og ferðamanna. 

Þar mun Borgarlínan leika lykilhlutverk í framtíðinni

Eitt meginmarkmið Borgarlínu er að fjölga notendum almenningssamgangna. Fái framhaldsskólanemar ókeypis í strætó má búast við að notkun þeirra á almenningssamgöngum aukist og að þeir líti á almenningssamgöngur sem raunhæfan kost til frambúðar. Við sjáum fyrir okkur að höfuðborgarsvæðið verði skipulagt sem ein heild til framtíðar sem eitt búsetusvæði, atvinnumarkaður með sameiginlegar náttúruperlur, auðlindir og grunnkerfi.

 

Við viljum:

  • Að umhverfissjónarmið, loftslagsáhrif og lýðheilsa séu höfð til hliðsjónar við allt skipulag hjá Kópavogsbæ.

  • Taka þátt í og styðja við uppbyggingu Borgarlínunnar.

  • Fjölga grænum svæðum og fækka gráum í samvinnu við íbúa og fyrirtæki.

  • Að Kópavogsbær taki allt skipulagsvald til sín en afhendi það ekki verktökum. Bæjaryfirvöld standi að hönnunarsamkeppnum og kynningum til íbúa svo sómi sé að.

  • Nýta útivistarsvæði Kópavogsbæjar betur líkt og Hlíðargarð og Rútstún. Við viljum auðga og byggja upp útivistarsvæðin í Smáranum, Fossvogsdal, Kópavogsdal, Guðmundarlundi, Kórum og Sölum.

  • Tengja Kópavogsdalinn við menningu og listir með uppbyggingu á þjónustu, hönnunar- og menningarmiðju við Dalveg með tengingu við dalinn.

  • Efna til hönnunarsamkeppni um nýtt skipulag fyrir Kópavogsdal sem fólksvang með svæðum fyrir útivist og bætta lýðheilsu að markmiði.

  • Setja af stað átak í gerð göngu- og hjólastíga um land Kópavogs og bæta aðstöðu í kring með skjólbeltum, vatnspóstum og upplýsingaskiltum. Áhersla verði lögð á að tengja útivistarsvæði saman með göngu- og hjólreiðastígum.

  • Sjá til þess að gangstéttir og göngu- og hjólastígar verði færir á veturna með því að bæta mokstur og  hálkueyðingu. Við viljum hafa samráð við nágrannasveitarfélög um snjómokstur tengdra stíga.

  • Standa vörð um vatnsvernd og vatnsverndarsvæði.

  • Taka upp samgöngustyrki fyrir starfsmenn bæjarins.

  • Kaupa umhverfisvæna bíla fyrir bæinn þegar gömlum er skipt út.

  • Snjallari Kópavog. Við viljum nýta snjalllausnir til hagsældar fyrir íbúana.

  • Sjá til þess að Kópavogur styðji við Parísarsamkomulagið með öllum ráðum.

  • Að opinbert kolefnisbókhald sé gert fyrir bæinn og verði aðgengilegt á vef Kópavogs.

  • Hvetja íbúa til nýtingar og endurvinnslu í anda hringrásarhagkerfisins og sýna gott fordæmi í þeim efnum í rekstri bæjarins.

  • Gera átak í flokkun sorps þar sem bærinn kynnir komandi fyrirkomulag vel fyrir öllum íbúum og aðstoðar þá sem eiga erfitt með aðlögun að því. Sérstaklega þarf að huga að hreyfihömluðum í þeim efnum.

  • Gefa Kópavogsbúum tækifæri til þess að velja mismunandi  losunartíma á sorpi. Þeir sem flokka og þurfa minni þjónustu greiði lægra gjald fyrir sorphirðu.

  • Tryggja að nemendur að 18 ára aldri fái ókeypis í strætó.

  • Setja upp hjólastæði við samgöngutorg.

  • Að fylgst verði með loftgæðum reglulega með færanlegum loftslagsmælum.

  • Marka stefnu í rafhleðslumálum og gera áætlun um uppbyggingu hleðslustöðva í bæjarlandinu svo íbúar eigi hægara um vik að hlaða rafbíla.

  • Að í Kópavogi verði kolefni bundið til jafns við það sem bæjarbúar losa og fyrirtækjum og almenningi verði gefinn kostur á gróðursetningu trjáa í upplandi Kópavogs í þessu skyni.