Nútímavæðum Kópavog!

Kjósum nýjan og lifandi miðbæ

Spurningin sem bæjarbúar þurfa að hugsa þegar þeir ganga að kjörborðinu 14. maí er í grundvallaratriðum; „Hvernig bær viljum við að Kópavogur verði?“ Íbúafjöldi Kópavogs hefur vaxið gríðarlega á undanförnum áratugum og í dag búa tæplega 40.000 manns í bæjarfélaginu. Tíundi hver Íslendingur er Kópavogsbúi!

Ein af breytunum sem kjósendur geta tekið afstöðu til er munurinn á hvernig flokkar vilja nálgast skipulagsmál bæjarins nú þegar nýtt byggingarland fer minnkandi og þétting byggðar verður meira áberandi í umræðunni. Það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Þessi grundvallarágreiningur kristallast hvað best í umræðunni um miðbæ Kópavogs sem stundum er nefndur Hamraborgarsvæðið þó svo að mest öll uppbyggining sé fyrirhuguð í Fannborg.

Í könnun sem gerð var meðal bæjarbúa í nóvember 2021 kom fram að 72% bæjarbúa vilja sjá að fram fari hönnunarsamkeppni um heildarásýnd í miðbæ Kópavogs.

Í staðinn hafa bæjaryfirvöld með aðkomu Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og á sínum tíma Viðreisnar farið þá gamalkunnu Kópavogsleið að afhenda skipulagsvaldið til verktaka og við þekkjum útkomuna. Ekkert samráð haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila en fyrst og fremst hugsað um hvernig hagnaður byggingaraðilans verði sem mestur.

Í núverandi skipulagstillögum er lítið hugsað um að sjá lifandi miðbæ með stórri skiptistöð, mathöll með veitingastöðum, opin svæði, hóflega þéttingu byggðar, aðlaðandi atvinnurekstur, menningarlíf og umhverfisvænt nútíma samfélag.

Það er enn vel hægt að koma í veg fyrir það stórslys sem framundan er í miðbæ Kópavogs og hugsa dæmið upp á nýtt en til þess þurfa kjósendur í Kópavogi að kalla nýja aðila að borðinu aðila sem vilja og þora að hlusta á íbúana og taka leiðsögn þeirra hvernig nútímavæða og bæta eigi það svæði sem við eigum öll í miðbæ Kópavogs. Möguleikarnir þar eru óendanlegir.

Við í Samfylkingunni viljum eiga þetta samtal við íbúana

Hákon Gunnarsson skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi

Gunnar Gylfason