Mín sýn á það hvernig standa ætti að kennslu nemenda af erlendum uppruna í grunnskólum Kópavogs

Upphaf uppbyggingar að kennslu nemenda af erlendum uppruna hófst með stofnun Nýbúadeildar í Hjallaskóla  þegar hópur flóttafólks hóf búsetu í Kópavogi. Strax kom í ljós að það þyrfti að gera eitthvað til að mæta þörfum nemenda sem þá hófu nám í grunnskólum Kópavogs. Tekin var ákvörðun af hálfu Kópavogsbæjar að fara þess á leit við skólastjóra Hjallaskóla að setja á laggirnar deild til að sinna þessum málaflokki. Deildin tók til starfa  árið 2000 og fljótlega var unnin stefnumörkun og áætlun um hvernig inntöku nemenda skyldi háttað og ætti deildin t.d að sinna öllum skólum í Kópavogi. Ráðin var deildarstjóri til að sinna uppbyggingu þessara mála.

4 - donata3.jpg

Grunnáherslur  deildarinnar voru að byggja brú milli tveggja menningarheima, rækta móðurmál nemenda og vinna með íslensku sem annað mál. Stundakennarar með móðurmál nemenda voru ráðnir til starfa í deildina. Árið 2011 breytir Nýbúadeildin um nafn og fær heitið Alþjóðanámsver en gegnir áfram sama hlutverki. Deildin stækkaði nú ört og var því sýnt að nemenafjöldi af erlendum uppruna var orðinn allt of mikill fyrir einn skóla til að sinna.

Í ört stækkandi bæjarfélagi varð einnig mikil aukning af fjölskyldum af erlendum uppruna.  Árið 2016 var því ákveðið af hálfu skólayfirvalda að stefnt skyldi að því að nemendur færu í sína heimaskóla og nytu þar  kennslu sem áður var veitt í Álfhólsskóla (áður Hjallaskóla). Umræðan í þjóðfélaginu og skólasamfélaginu almennt var einnig því fylgjandi að svo yrði. En strax vöknuðu spurningar hjá mér um það hvert við stefndum og hvernig hægt yrði að mæta nemendum og byggja upp viðunandi kennsluúræði þar sem skólarnir eru dreifðir og nemendafjöldi mismikill eftir skólum. Skólarnir voru ekki í stakk búnir nema að litlu leyti til að mæta þörfum þessara nemenda. Skortur var á kennurum með íslensku sem annað mál, en kennarar voru allir að vilja gerðir til að mæta þessum áskorunum en upplifðu vanmátt sinn í að mæta þessum fjölbreytta nemendahópi.

Getum við tekið eitthvað af þeirri hugmyndafræði og þeim áherslum sem unnið hefur verið eftir í þessi 16 ár sem deildin hefur starfað til að mæta nemendum með  annað móðurmál en íslensku? Svar mitt er já.

Til að mæta þeirri uppbyggingu sem sett hefur verið fram í dag, það er að allir skuli stunda nám í sínum heimaskóla tel ég að við  þurfum að taka nokkuð marga þætti og kryfja til mergjar.

Af fyrri reynslu sem er þá kennsla mín við Nýbúadeildina í 9 ár  og núverandi ráðgjafastarf hjá Kópavogsbæ legg ég til:

 
  • Að í hverjum skóla sé starfrækt starfsstöð og tryggður sé nægjanlegur fjöldi kennslustunda í íslensku sem öðru máli.
  • Í slíkri starfsstöð þyrftu að vera tveir kennarar (einn fyrir yngri nemendur og einn fyrir eldri en það fer að vísu  eftir fjölda nemenda í hverjum skóla) sem myndu sjá um kennslu og innra skipulag í tengslum við viðkomandi bekkjarkennara. Jafnframt er mikilvægt að átta sig á að fjölbreyt flóra af nemendum með annað móðurmál en íslensku kallar á mikla breidd í nálgun kennslu og uppbyggingu í íslensku sem öðru máli. Þess vegna er það mikilvægt að farandkennarar séu til staðar hjá Kópavogsbæ til að sinna þeim nemendum út frá því tungumáli sem hver og einn nemandi talar. Mín sýn og reynsla eftir að hafa unnið með kennurum með hin ýmsu tungumál hefur einnig sýnt mér að nemendur öðlast fyrr þekkingu, sjálfstæði og þor þegar að þeim er mætt á þessum forsendum.
  • Jafnframt tel ég að þessi veruleiki verði hvorki fugl né fiskur nema að það sé settur inn einhversskonar vinnuhópur sem setur stefnumarkandi uppbyggingu af stað til að styrkja hvern skóla í sinni nálgun og sem stýrður er af kennsluráðgjafa á vegum Menntasviðs Kópavogsbæjar. Þannig að uppbyggingin verði markviss og uppbyggjandi til að mæta þörfum nemenda af erlendum uppruna í grunnskólum Kópavogs.
  • Athuganir sem gerðar voru hafa einnig sýnt mér að margir nemendur sem hafa stundað nám í Nýbúadeild Hjallaskóla hafa náð langt bæði í framhaldsnámi og starfi. Það segir mér meira en margt annað að nauðsynlegt er að ígrunda vel hvernig staðið er að þessum málum.

Það er nauðsynlegt að horfa vel til framtíðar þar sem börn vaxa úr grasi og önnur eða þriðja kynslóð hefur sýnt það í nágrannalöndunum okkar að hún er ósátt og telur að tilboð til náms hafi ekki verið á sama grunni og þeirra sem byggt hafa landið og eru þeir nú í dag að koma fram með harðar kröfur sem eru á margan hátt réttmættar.   Ef það er ekki skoðað gaumgæfilega hvernig við byggjum upp menntakerfi þessa hóps þá munum við lenda í verulegum vanda þegar fram í sækir og hópurinn lítur til baka og spyr sig hvað fékk ég ekki og hverju átti ég rétt á.

Það er því skoðun mín að það sem hér á undan hefur verið sagt skiptir verulega miklu máli þó svo að það kosti fjármuni í framkvæmd í fyrstu , þá  er ég viss um að það muni skila sér í jákvæðum og sáttari þjóðfélagsþegnum þegar fram í sækir .

Donata H. Bukowska, ráðgjafi í málefnum nemenda af erlendum uppruna.

Andrea Björk