Aldraðir í Kópavog, ungir flytja annað

Núverandi meirihluti í Kópavogi gleðst yfir því að aldrei hefur verið jafn mikið byggt af íbúðum í bænum og á yfirstandandi kjörtímabili. Það er gott og vel en hefur jafnframt í för með  sér að sáralítið er eftir af óbyggðu landi í bænum. Lóðir hafa nánast eingöngu verið seldar verktökum sem starfa á frjálsum markaði. Þeir hafa nýtt sér það ófremdarástand sem verið hefur í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin ár og hámarkað gróða sinn með góðum árangri. Ekkert hefur á sama tíma bæst í félagslega íbúðakerfið hjá okkur né verið hugsað fyrir námsmannaíbúðum svo eitthvað sé nefnt. Nú eru tilbúnar og í byggingu fjöldi smærri íbúða í bænum sem flest ungt fólk hefur því miður ekki efni á að festa kaup á. Þess í stað flytur það í önnur sveitafélög þar sem fá má ódýrara húsnæði. Í stað unga fólksins kaupir eldra fólk sem er að minnka við sig íbúðirnar. Hvaða áhrif mun þetta hafa á bæjarfélagið á næstu áratugum?

100 eldri borgarar á biðlista

Í dag eru um hundrað manns á biðlista hjá dagvist eldri borgara í Kópavogi í Sunnuhlíð og Boðanum. Þetta fólk þarf nauðsynlega á slíkri þjónustu að halda og margir á listanum þyrftu í raun hjúkrunarrými. Fólk á biðlista lendir inn á bráðamóttöku, m.a. oft vegna næringaskorts þar sem ekki er fylgst með mataræði í heimahúsum. Ekki er í sjónmáli að bæta úr þessu hjá núverandi valdhöfum. Ekkert hefur verið að gert s.l. fjögur ár.

Samkvæmt spá Hagstofunnar er gert ráði fyrir að á næstu 20 árum fjölgi fólki 67 ára og eldra um tæp 40% á landsvísu. Leiða má líkum að því að þessi hópur vaxi jafnvel meira í Kópavogi þar sem hlutfall eldri borgara í Kópavogi vex á kostnað yngra fólks. Síðustu fjögur ár hefur börnum að tvítugu fjölgað um 3,4% í Kópavogi á meðan íbúum sextíu ára og eldri hefur fjölgað um 21%. skv. tölum Hagstofunnar. Með auknum fjölda eldri borgara og skorti á lóðum til að byggja viðeigandi þjónustu fyrir þá horfum við fram á vonda tíð þegar börnin sem ólust upp í barnabænum Kópavogi þurfa á þessari þjónustu að halda. Samfylkingin vill taka á þessu vandamáli og skipuleggja til framtíðar ekki bara setja plástra þó þeirra sé vissulega þörf núna.

Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Andrea Björk