Af hverju ættum við að kjósa

Í Kópavogi búa yfir 3500 innflytjendur sem er um 10% allra íbúa bæjarins. Stór hluti af þessum hóp er búinn að búa á Íslandi í fimm ár eða lengur og getur þess vegna kosið í sveitarstjórnarkosningum. Athugun gerð af nágranna okkar, Reykjavíkurborg hefur leitt í ljós að fimmti hver innflytjandi með kosningarrétt greiðir atkvæði. Það er frekar lág tala. Sérstaklega þegar sveitarstjórn tekur ákvarðanir sem hafa bein áhrif á aðstæður innflytjenda í samfélagi.  Af hverju notum við ekki þennan möguleika sem lögin tryggja okkur til að hafa áhrif á líf okkar á nýjum stað? Kannski vegna þess að við skiljum ekki fyllilega hvaða kosti kosningar bera með sér. Við vitum að það er réttur okkar að kjósa og að svona virkar lýðræði. En hvað þýðir það í raun og veru?

 

Af hverju það borgar sig að greiða atkvæði?

Í fyrsta lagi, í maí veljum við einstaklinga sem ætla að vinna fyrir okkur næstu 4 árin og  taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á lífsgæðin okkar á mörgum sviðum.

Við kjósum til að tryggja viðeigandi umönnun og menntun fyrir börn á fyrsta skólastigi þeirra. Í Kópavogi starfa 21 leikskólar þar sem u.þ.b. 2020 börn stunda nám. Bæjaryfirvöld ákveða hvernig aðstaða barnasem dvelja í 8 eða jafnvel 9 tíma á dag er á leikskólum. Ákvarðanir bæjaryfirvalda hafa einnig áhrif á það hversu mörg laus pláss eru í leikskólum og hversu lengi barn þarf að bíða eftir leikskólaplássi.

Við greiðum atkvæði til að tryggja ungum Kópavogssbúum góða menntun. Bærinn sér um rekstur grunnskólana. Aðbúnaður, þjónusta sérfræðinga og t.d. auka aðstoð fyrir þá sem læra íslensku sem annað mál eru háð ákvörðunum bæjaryfirvalda.

Okkar atkvæði mun einnig hafa áhrif á það hvort og hversu margar leigu- og  félagslegaríbúðir verða byggðar í Kópavogi. Eða þá íbúðir sem allir geta leyft sér að kaupa ekki bara þeir efnaðri.

Við kjósum til að fá t.d. greiðfærar götur og gangstéttir á veturna enda sér bærinn um viðhald og ástand gatna, gangstétta og göngu- og hjólastíga.

Fólk sem við kjósum mun ákveða í hvað okkar sameiginlegu peningar fara . 14,48% af okkar tekjum fer til bæjarsjóðs. Árið 2016 námu útgjöld Kópavogsbæjar 34.951.529.597 kr.

Við ættum að kjósa til að geta kvartað seinna. Já! Atkvæði okkar gefur okkur siðferðsilegan rétt til að kvarta ef við verðum óánægð í framtíðinni.

Við kjósum vegna þess að það er réttur okkar. Réttur sem tryggir okkur val. Ákvörðunin er okkar!

Donata H. Bukowska
Ráðgjafi í málefnum nemenda af erlendum uppruna og varabæjarfulltrúi.