Framtíðar- og þróunarsvið í Kópavogsbæ

Nútímavæðum Kópavog

Það er mjög mikilvægt í rekstri allra fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana að lykilaðilar komi sér saman um yfirstefnu sem unnið skal eftir. Það gildir auðvitað líka um rekstur bæjarfélags eins og Kópavogur er. Þann 16. febrúar 2018 var eftirfarandi yfirstefna samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Kópavogs:

„Hlutverk Kópavogsbæjar er að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu. Grunnreglur bæjarfélagsins eru skýrar og miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Kópavogsbær leggur áherslu á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi“

Taka má undir allt sem þarna stendur. Skipurit og skipulag er í raun birtingarmynd þeirra stefnu sem unnið er eftir. Þegar núverandi skipulag er skoðað er það sláandi að þar er enginn sýnilegur vettvangur fyrir þá hugsun sem snýr að framtíðarþróun og framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild sinni. Þau verkefni sem snúa að framtíðarsýn fyrir bæinn eru dreifð víða um stjórnkerfið. Nefna má íbúalýðræði, nýsköpun, skipulagsmál, markaðs- og ímyndarmál, hlutverk félagasamtaka og margt fleira. Á árinu 2022 er það ekki ásættanlegt að skipulag í rekstri fyrirtækja og stofnana hvers konar taki ekki mið af þessari hugsun og framtiðarsýn. Það er í raun enginn staður í núverandi skipulagi sem hefur það að markmiði að laða að fólk og fyrirtæki til að velja sér búsetu í Kópavogi á grundvelli metnaðarfullrar framtíðarsýnar sem vísar beint í yfirstefnu bæjarins.

Við höfum orðið vitni að stórslysum í skipulagsmálum Kópavogi og má rekja það beint í hvernig stjórnkerfið í bænum er byggt upp. Vinnubrögðin í miðbæ Kópavogs er augljóst dæmi. Hægt er líka að nefna Kársnesið, Kópavogsdalinn, Vatnsenda, Auðbrekku og listinn er miklu lengri. Sú stefna að úthluta skipulagsvaldi til þóknanlegra verktaka og þróunaraðila án aðkomu íbúa hefur haft í för með sér skelfilegar afleiðingar sem við þekkjum. Það er kominn tími á breytt vinnubrögð eftir valdasetu helmingaskiptaflokkanna við stjórn bæjarins síðustu 30 árin.

Framtíðar- og þróunarsvið innan stjórnkerfis bæjarins er lífsnauðsynlegt fyrir stjórnun bæjarfélagsins ætli hann að gegna hlutverki sínu. Við jafnaðarmenn í Kópavogi teljum endurskoðun stjórnkerfis bæjarins vera eitt af stærstu verkefnum nýrrar bæjarstjórnar sem tekur við eftir kosningarnar 14. maí.

Þetta er hluti af stefnu Samfylkingarinnar að nútímavæða Kópavog

Hákon Gunnarsson skipar 2. sæti hjá Samfylkingunni í Kópavogi


Gunnar Gylfason