Bæjarstjórnarfundur 13.11.2018
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fóru í pontu og reifuðu ýmis mál á síðasta bæjarstjórnarfundi. Dagskrármál var fyrri umræða um fjárhagsáætlun Kópavogs sem tók sinn skerf. Fjárhagsáætlun var unnin í samvinnu allra bæjarfulltrúa í fjórða sinn, þannig teljum við að okkar mál nái frekar framgangi.
Hér eru þau mál sem Pétur reifaði:
Fjárhagsáætlunin:
Mörg jákvæð atriði í fjárhagsáætluninni. Rekstrarumhverfi hefur verið jákvætt fyrir sveitafélögin um land allt og er Kópavogur þar ekki undanskilinn.
Nefna má aukin sálfræðiþjónusta í grunnskólum um 40 klst. á viku. Snemmtæk íhlutun í leikskólum
Aukinn stuðningur við börn með sérþarfir. Hækkun til málaflokks fatlaðra sem og til heilsueflingar starfsmanna bæjarins.
Menntamál:
Bæjarfulltrúar samfylkingarinnar lögðu áherslu á að þau börn sem eru með annað móðurmál en íslensku fengju fleiri kennslustundir en nú er og því fylgir auðvitað kostnaður. Samþykkt var sem fyrsta skref að kaupa mælitæki til að skoða málið í Kópavogi og er það fyrsta skrefið, en margir sérfræðingar hafa talið að mikið brottfall nemenda af erlendu bergi brotnu úr grunn- og menntaskólum megi rekja til slakrar íslenskukunnáttu. Úr því er brýnt að bæta.
Húsnæðismál:
200 milljónir fara til kaupa á félagslegu húsnæði. Þessi tala hefur verið óbreytt undanfarin 4 ár, en vonandi þessi tala margfaldast ef samningar nást við ríki um uppbyggingu á félagslegu húsnæði og leiguhúsnæði. Okkar 200 milljónir eru 12% af upphæðinni og ef ríkið kemur með 18% og aðrir aðilar með afganginn eða 70% erum við að tala um byggingu eða kaup á húsnæði fyrir 1.5 milljarð króna í Kópavogi. Leggja verður áherslu á að ná samningum.
Fasteignaskattur:
Fasteignaskattur lækkar 0.23 í 0.22 sem er 4.8% en tekjur hækka um 6.7% sem skýrist að stærstum hluta af því að fasteignamat í Kóp hefur hækkað verulega. Skattalækkun eða skattahækkun? Skattprósentan lækkar en hver íbúðareigandi greiðir fleiri krónur í fasteignasatt á árinu 2019 en hann gerði á árinu 2018. Klassísk umræða.
Vatnsskattur og holræsagjald lækkar, enda lögbundið að Kópavogur má ekki græða á vatnsveitu og fráveitu og staða veitufyrirtækjanna er þannig að Kópavogur verður að lækka gjöldin.
Stjórnsýslan:
Laun og launatengd gjöld í hlutfalli við rekstrartekjur hafa vaxið úr 46,2% á árinu 2012 yfir í 55.8% í áætlun 2018 og verður 55.3% í áætluninni fyrir næsta ár.
Sama má segja um annan rekstrarkostnað í hlutfalli við rekstrartekjur sem hefur lækkað úr 32% á árinu 2012 í 29% árið 2017 en nú i áætlun 2019 fer hann upp í 32,4%.
Afborganir lána:
Kópavogsbær hefur fengið tekjur af sölu lóða, sem hafa meðal annars runnið til afborgana á lánum og til framkvæmda og þannig gert bænum kleyft að gera hvoru tveggja án þess að auka á lántökur á undanförnum árum. Nú er útlit fyrir á næstu árum að þessar tekjur af lóðasölu minnki og því mikilvæt að huga að rekstrarkostnaði og gæta þess að hann fari ekki úr böndum, hvort heldur sem um er að ræða laun og launatengd gjöld eða annan rekstrarkostnað. Því það verður reksturinn sem verður að standa undir greiðslum vegna afborgana og framkvæmda á næstu árum án viðbótartekna af lóðasölu.
Ramminn:
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir rúmum tæpum 30 milljörðum í skattekjur. Stærstur hluti áætlunar er í ramma sem settur var við fjárhagsáætlunargerð árið 2010. Síðan hefur ramminn ekki verið endurskoðaður af kjörnum fulltrúum. Ég tel að í fjárhagsáætlunargerð á næsta ári sé kominn tími til að kjörnir fulltrúar kafi ofan í rammann og fari þannig mun dýpra í fjárhagsáætlunargerðina heldur en gert hefur verið undanfarin ár.
Húsnæðisfélagið Bjarg:
Björn traustason mætti á fund bæjarráðs og kynnti hugmyndir Bjargs sem er íbúðafélag í eigu ASÍ og BSRB og hefur það að markmiði að byggja hagkvæmt leiguhúsnæði sem er ekki hagnaðardrifið og býður tveim lægstu tekjufimmtungunum upp á gott en ódýrt leiguhúsnæði. Bjarg hefur óskað eftir samstarfi við Kópavog, Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa flutt tillögu um slíkt samstarf á síðasta kjörtímabili. Við styðjum slíkt samstarf og ég beini því til bæjarstjóra og til formanns bæjarráðs bæjarfulltrúa Birkis Jóns Jónssonar og til bæjarfulltrúa meirihlutans um að tryggja slíkt samstarf á næstu vikum og mánuðum. Bjarg er með vilyrði fyrir lóðum fyrir 1.000 íbúðum í Reykjavík og 100 í Kópavogi. Ekkert í Kópavogi. Mikilvægt að tryggja fjölbreytni í húsnæðismálum í Kópavogi. Bjarg er ein leiðin í þeim efnum.
Óhapp hjá Málningu hf.:
Í fundargerð heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópvogs kemur fram bréf til Málningar vegna mengunar í Kópavogslæknum. Undirritaður vakti athygli á málinu í bæjarráði og ánægjulegt að bæjarráð bókaði samhljóða Bókun:
Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum vegna mengunartilvika sem upp eru að koma í Kópavogslæk. Bæjarráð óskar eftir að Heilbrigðiseftirlitið taki málið til nánari skoðunar.
Plastpokanotkun:
Undirritaður lagði fram tillögu um plastpokanotkun hjá Kópavogsbæ í Bæjarráði frá 8.nóvember og að leitað verði leiða til að draga úr henni. Tillögunni var vísað til gerðar umhverfisáætlunar og leit bæjarráð jákvætt á málið. Bæjarfulltrúi VG, Margrét Júlía Rafnsdóttir kom með tillögu um plastnotkun á síðasta kjörtímabili. Þeirri tillögu var vísað til umhverfissviðs. Síðan gerðist ekkert, ekkert og það þrátt fyrir ítrekanir bæjarfulltrúans þáverandi. Ég mun fylgja þessari tillögu eftir og vonandi verða það ekki örlög hennar að týnast einhverstaðar í kerfinu. Vonandi verður meðgangan ekki eins löng og stofunun Öldungaráðs.
Og hér eru þau mál sem Bergljót snerti á:
Fjárhagsáætlun:
Ég óska eftir að koma með breytingatillögu að fjárhagsáætlun. Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegast að hún hefði komið fram fyrr í ferlinu en því miður gafst ekki ráðrúm til þess.
Mig langar að fara þess á leit að bæjarsjóður standi straum af a.m.k. einni rútuferð á árgang í grunnskólum bæjarins á ári sem er eyrnamerkt listviðburði utan skólans. Erfiðleikar með far til og frá skóla hafa staðið því fyrir þrifum að grunnskólabörn fái að njóta listviðburða á skólatíma. Kennarar hafa gefist upp á að reyna að koma heilum árgangi til og frá skóla með strætó. Einungin má fara með 20 börn í einu í hvern vagn og ekki er nægilega margt starfsfólk til að halda utan um stærri hópa fyrir nú utan þann tíma sem slíkt ferðalag tekur. Með þessari einu aðgerð gefum við börnum bæjarins mjög aukna möguleika á að fá að kynna sér listviðburði og menningarhús af eigin raun.
Ég óska eftir að þessi þáttur verði kostnaðargreindur þannig að hægt sé að áætla fyrir honum fyrir næsta skólaár og málið tekið fyrir við seinni umræðu fjárhagsáætlunar.
Sorpa:
Í rekstraráætlun Sorpu 2019 – 2023 sem kynnt var á fundi stjórnar Sorpu 24.10 s.l. kemur fram að magnaukning á mótteknu sorpi frá árinu 2010 til 2017 sé 62%. 62% á 8 árum. Það er töluvert. Árið 2017 náðum við aftur að safna sama magni af rusli og hið fræga ár 2008. Þessi sorphirðutala mun halda áfram að hækka í nánustu framtíð með sama hraða nema við gerum eitthvað í málunum.
Nú biðlar Sorpa til sveitarfélaganna um að fara í átak með íbúum og fyrirtækjum til að flokka sorp betur. Þannig megi endurvinna stærri hluta sorps sem er ódýrari meðhöndlun og umhvefisvænni en urðun. Hér eigum við í Kópavogi að taka frumkvæði og fara af krafti í vitundarvakningu í okkar bæjarfélagi og jafnvel beita kvöðum að hluta. Við verðum að taka á þessu máli. Því miður eru enn allt of margir sem ekki leggja sitt lóð á þessa vogarskál. Flokkun sorps er eitthvað sem við getum gert. Við getum ekki fækkað eldgosum eða ákveðið að fækka flug- og skipaferðum til að minnka kolefnisspor okkar og þannig að ná markmiðum Parísarsáttmálans. En þetta getum við hvert og eitt lagt til. Bætt sorphirðu og breytt neysluhegðun okkar til að minnka sorp. Bæjarfélagið þarf að vera í fararbroddi og draga þennan vagn.
Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir Sorpu sér þess ekki stað í rekstrarniðurstöðu vegna mikillar magnaukningar á sorpi. Aukin sorphirða þýðir aukin fjárútlát hjá bæjarbúum þar sem gert er ráð fyrir að sorphirðugjöld standi alfarið undir hirðingu og förgun. Við getum notað það sem hvatningu til bæjarbúa. Gjöld munu halda áfram að hækka nema spyrnt sé við fótum.
Meðal þess sem Sorpa bendir á sem hagræðingu er að fækka þurfi og stækka endurvinnslustöðvar sem eru nú 6 talsins á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega eru nefndar stöðvarnar við Dalveg og Jaðarsel sem eru á of þröngu svæði. Þetta eigum við að skoða sem tækifæri og færa núverandi stöð við Dalveg yfir Reykjanesbrautina á svæði á landamærum Reykjavíkur og Kópavogs í samvinnu við Reykjavík. Þannig mætti mögulega fækka um eina stöð og ná fram brýnni hagræðingu.
Það er í mörg horn að líta ef við ætlum að standa við stóru orðin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars mætti bæta undirmarkmiði 13.3 inn á stefnumótunarlistann okkar í Kópavogi. Þar er fjallað um að auka menntun til að vekja fólk til meðvitunar um hvernig mannauður og stofnanir geti haft áhrif og brugðist við loftlagsbreytingum. Allt sem við getum gert telur til framtíðar.
Vona að Bæjarfulltrúi Birkir Jón Jónsson formaður stjórnar Sorpu bregðist fljótt við ósk minni um vinnufund um sorphirðu og förgun ásamt sérfræðingum á því sviði svo við kjörnir fulltrúar getum stillt saman strengi okkar í þessum mikilvæga málaflokki.
Óhapp hjá Málningu hf.:
Og talandi um heimsmarkmiðin langar mig að minnast á óhapp sem varð hjá Málningu hf. um daginn og olli því að Kópavogslækurinn tók á sig hvítan lit. Það er löngu tímabært að hætta að veita frárennsli í lækinn og vernda það viðkvæma vistkerfi sem þar er. Yfirborðsfrárennsli á að fara í síu og síðan beint á haf út. Þannig getum við stuðlað að bætingu samkvæmt markmiði 15 um verndun vistkerfa í heimsmarkmiðunum. Væri ekki ráð að nýta þann rekstrarafgang sem nú fæst frá fráveitu Kópavogs til að fara í það verkefni?
Húsnæðismál:
Andsvar við ræðu bæjarstjóra: Þótt 85% svarenda í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs vilji kaupa húsnæði í dag má ekki skilja það þannig fólk í þeim flokki mundi ekki alveg eins vilja leigja ef leigumarkaðurinn væri með öðrum formerkjum. Leigufélög í Danmörku eru 200 ára gamalt húsnæðisform sem hefur staðið af sér allar kreppur og fólk vill búa í slíku kerfi, m.a. vegna þess að fólk í dag vill ekki þurfa hafa áhyggjur af viðhaldi húsnæðis.